10. ágúst 2019

Snæfugl

 • Mesta hæð

  757 m

 • Hækkun

  740 m

 • Áætluð gönguvegalengd

  12 km

 • Áætlaður göngutími

  7-8 klst. (uppgöngutími 4 klst.)

 • Erfiðleikastig

  4 / 5 - Krefjandi fjallganga

 • Göngubyrjun

  Frá eyðibýlinu Karlsskála (15m)

 • Verð

  2.500,-

Lýsing ferðar

Utarlega við Reyðarfjörð norðanverðan er fjall sem ber sérstakt nafn en það er fjallið Snæfugl.  Snæfuglinn er hömróttur nánast allan hringinn og má telja ein sex klettabelti upp á topp.  Eins og gefur að skilja eru ekki margar leiðir á fjallið vegna klettanna og er langoftast farið á fjallið úr suð-vestri.
Til að nálgast Snæfugl er ekið í gegnum Eskifjarðarbæ austur með ströndinni út fyrir afleggjarann sem liggur til Vöðlavíkur og Viðfjarðar.  Þá er ekið eftir vegi sem er merktur „Karlsskáli“ en hann er um fimm km langur.  Afleggjarinn er fær flestum aldrifsbílum eitthvað áleiðis en aðeins fær jeppum síðasta spölinn að eyðibýlinu Karlsskála.  Þar hefst einnig stikaða gönguleiðin yfir Karlsskálaskarð til Vöðlavíkur en það er nokkuð vinsæl leið.  Leiðin á Snæfugl liggur nánast upp í Karlsskálaskarð og er því vel hægt að fylgja stikunum eða koma eftir þeim á leiðinni tilbaka.  Leiðinni sem hér er stungið upp á liggur ofan við Karlsskáladal og er farið upp Hnausa, að Hesthaus sem gaman er að skoða í návígi.  Þegar gengið er við Hesthaus er hæðinni haldið eins og kostur er yfir að skarðinu og komið inn á stikuðu leiðina nálægt því.  Nú er stefnt á suð-vestur hlið Snæfugls en ágætt er að halda sig í gróna hlutanum á urðinni neðan fjallsins en urðin er nokkuð seinfarin.  Þar er skriða sem einna best er að fara upp og er farið upp um tvö klettabelti og haldið eftir syllunni í norður.  Þá er klöngrast aftur upp um tvö belti og farið upp undir síðasta beltið á norð-vestur horninu.  Síðan er gengið í suður undir efsta beltinu þar til komið er að stuttri skriðu sem leiðir göngufólk upp á mosagróinn toppinn.
Í vörðu á toppi Snæfugls er kassi með gestabók og er hægt að sjá að ekki er mjög mikið um mannaferðir á fjallið en þó alltaf nokkrir yfir sumarið.
Mjög fagurt er að horfa yfir Svartafjall til Vöðlavíkur og útsýni inn með Reyðarfirði endilöngum er magnað að sjá.  Að sjálfsögðu ber að halda sömu leið niður og komið var upp enda er auðvelt að rata í ógöngur í klettabeltunum.

 • Það sem þarf meðferðis:

  Góðir gönguskór
  Hlýr fatnaður
  Skel (jakki og buxur)
  Bakpoki
  Nesti & drykkirWildboys